Sátt við það sem er
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jul 21, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég finn fyrir sársauka í brjóstkassanum vinstra megin sem virðist leiða út í herðablaðið. Ég anda inn og út þar sem ég hef komið mér fyrir í sófanum. Þrátt fyrir að sársaukinn sé líkamlegur veit ég að þetta eru fyrst og fremst gamlar tilfinningar að koma upp á yfirborðið.

Ég geri mér ekki fullkomlega grein fyrir því hvaða tilfinningar þetta eru, kannski einna helst sorg, en það skiptir ekki öllu máli. Ég þarf ekki að vita nákvæmlega hvaða tilfinningar þetta eru eða hvaðan þær koma, ég þarf aðeins að leyfa mér að finna þær.
Ég gæti reynt að láta eins og þessar tilfinningar séu ekki til innra með mér. Það væri auðvelt að finna mér eitthvað að gera til þess að beina athygli minni annað, borða eða drekka eitthvað, horfa á sjónvarpið, fara út að hreyfa mig, jafnvel lesa bók. Það væru þó mistök, vegna þess að eina leiðin til þess að heila þessar tilfinningar er að upplifa þær.
Ég held því áfram að anda djúpt og rólega. Ef mér finnst ég þurfa þess, leyfi ég tárunum að flæða óhindrað. Þrátt fyrir að mér líði afar illa, fer ég smá saman að slaka á eftir því á sem líður, eins og líkami minn sé að losa um eitthvað sem lengi hafi setið fast. Ég gef mér tíma til þess að leyfa þessu að gerast, enda veit ég af fyrri reynslu að þetta muni líða hjá.
Ég er ekki að dvelja svona með tilfinningum mínum til þess að ég geti vorkennt mér fyrir að eiga bágt. Í mínum huga snýst þetta ferli um að veita tilfinningum mínum heilbrigða útrás, svo að þær séu ekki lengur til staðar innra með mér án þess að ég geri mér grein fyrir því (en þá er líka alltaf mesta hættan á því að ég taki þær ómeðvitað út á öðrum).
“Well, it starts with being willing to feel what we are going through. It starts with being willing to have a compassionate relationship with the parts of ourselves that we feel are not worthy of existing on the planet. If we are willing through meditation to be mindful not only of what feels comfortable but also of what pain feels like, if we even aspire to stay awake and open to what we are feeling, to recognize and acknowledge it as best we can in each moment, then something begins to change.” – Pema Chodrön
Mín reynsla er sú að allt eigi sér sinn stað og tíma. Þegar ég finn þessar gömlu tilfinningar banka upp á, er það vegna þess að ég er tilbúin til þess að losa þær úr líkama mínum með því að veita þeim viðtöku. Ef ég reyndi að forðast að finna þær þegar þær minna svona á sig, væri ég aðeins að framlengja tilvist þeirra innra með mér.
Það er aldrei gaman að takast á við það þegar svona sárar tilfinningar koma upp en það hjálpar að vera forvitinn um það sem er að eiga sér stað. Þó svo að ég þurfi ekkert endilega að vita hvaða tilfinningar þetta eru eða hvaðan þær koma, eru svona atvik engu að síður tækifæri til þess að taka stöðunni á því hvernig mér líður og hvað sé að gerast innra með mér.
Markmiðið með því að leyfa tilfinningunum að koma svona upp á yfirborðið er ekki að týna sjálfri mér eða leyfa tilfinningunum að taka mig yfir, heldur að læra meira um sjálfa mig. Það er ekkert auðvelt að vera virkilega sorgmædd, leið eða jafnvel reið, en það eina sem ég get gert á slíku augnabliki er að gefa sjálfri mér rými.
Að gefa sjálfri mér rými snýst um að veita mér það frelsi að líða nákvæmlega eins og mér líður og leyfa því sem þarf að gerast að eiga sér stað. Ég er ekki að reyna að breyta neinu. Það sem ég er að gera er að sættast við og mæta sjálfri mér þar sem ég er. Horfast í augu við það sem á sér stað, hér og nú.
Comentarios