top of page

Sex daga fasta

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jun 16, 2021
  • 5 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég var búin að vera í tæpar sex vikur á framhaldsnámskeiðinu hjá Hildi Jónsdóttur, sem er hreinsunarprógramm í þrjá mánuði, þegar það var komið að því að fara á föstu.

Hildur fer yfir ástæðurnar fyrir því að fasta á heimasíðu sinni en markmiðið með föstunni er fyrst og fremst að gefa líkamanum tækifæri til þess að losa sig við eiturefni og auðvelda heilun. Hildur mælir með því að fasta einu sinni til tvisvar á ári, ef um er að ræða svona djúsföstu með tveimur vatnsdögum inn á milli eins og við vorum að gera, eða taka vatnsföstu einu sinni á ári.


Ég vil taka það fram að mér hefði aldrei dottið í hug að fasta svona upp á mitt einsdæmi. Hildur hefur mikla reynslu af þessu og hún sagði okkur nákvæmlega hvað við ættum að gera áður en við byrjuðum að fasta, hélt daglega fundi þar sem við gátum spurt hana út í einkennin sem við vorum að upplifa og var svo með fræðslu um hvernig ætti að brjóta föstuna, sem er alveg jafn mikilvægt og fastan sjálf, ef ekki meira. Í þessum pistli fer ég yfir hvernig fastan mín fór fram dag frá degi en ég bendi á að þessar lýsingar eru ekki til þess gerðar að fólk fari eftir þeim sjálft án leiðsagnar.


Dagur eitt: djúsfasta

Ég drakk glas með sítrónu og tók góðgerla eins og á venjulegum morgni. Fyrsta daginn áttum við að drekka fimm safa en Hildur sagði á daglega fundinum okkar í hádeginu að við þyrftum ekki að drekka alla safana ef við finndum ekki til svengdar, svo ég endaði á að drekka þrjá yfir daginn ásamt næstum þremur lítrum af vatni. Dagurinn gekk vel og mér leið raunverulega bara alveg jafn vel og á venjulegum degi.


Dagur tvö: vatnsfasta

Ég fann ekki ennþá fyrir svengd, sem Hildur sagði að væri merki um að líkaminn væri að kalla á föstuna og sagði að ég gæti byrjað á vatnsföstu á þessum degi ef ég vildi. Ég gerði það og leið vel yfir daginn en þurfti að passa mig á svima.


Um kvöldið fann ég fyrir vægri ógleði og fann fyrir meltingunni á þeim stað sem hefur helst verið að angra mig, sem eru merki um að hreinsun væri að eiga sér stað. Ég drakk næstum þrjá lítra af vatni yfir daginn, fékk mér smá salt í eitt glasið og drakk seinni partinn hreint piparmyntute með smá kaldpressuðu, lífrænu hunangi.


Dagur þrjú: vatnsfasta

Mér leið ágætlega yfir daginn en var frekar orkulaus. Ég fann ekki til svengdar fyrir utan eitt skipti í nokkrar mínútur, sem leið hjá. Seinni partinn var ég orðin frekar leið á þessu ferli og fann fyrir því að ég var farin að bíða eftir að þetta yrði búið. Ég þurfti að taka því rólega, enda orkulaus og gjörn á að svima við að standa upp, og lá því bara yfir sjónvarpsþáttum.


Ég drakk aðeins minna af vatni yfir daginn en svaf líka aðeins lengur, enda laugardagur. Klukkan ellefu um kvöldið var ég að hugleiða og þurfti að hætta því ég fann fyrir ógleði og fannst eins og ég væri að fá magakrampa, sem ég hef fengið áður undir miklu álagi en þeim fylgja uppköst, en það gerðist sem betur fer ekki. Ég var hins vegar mjög viðkvæm og fann fyrir meltingunni á þeim stað sem hún hefur verið að angra mig.


Dagur fjögur: vatnsfasta

Mér líður alltaf best á morgnana og fram eftir degi. Seinni partinn fór ég að finna fyrir mildum óþægindum, afar vægri ógleði og verkjum í síðunni hægra megin og verkjum í öxlum þar sem ég er gjörn á að finna fyrir vöðvabólgu. Þessi dagur sýndi mér vel hvað það er helst í líkamanum sem er að angra mig. Ég fór svo að finna fyrir miklum kulda og fannst vera svitalykt af mér, þó svo að ég væri dugleg við að setja á mig svitalyktareyði, en það var líklega líkaminn að nota allar leiðir sem hann gat til þess að hreinsa út.


Dagur fimm: djúsfasta

Ég byrjaði daginn á því að gera mér vatnsþynntan safa og sötra hann í rólegheitum fram eftir morgni. Ég passaði mig að drekka nóg af vatni yfir daginn líka, að minnsta kosti tvo lítra. Eftir hádegi gerði ég annan safa og sötraði hann og þriðja um kvöldmatarleytið.


Mér leið ágætlega fram eftir degi en fann aðeins fyrir meltingunni og tók meltingarensím til þess að hjálpa kerfinu. Um sexleytið fór ég að upplifa óþægindi og áttaði mig á því að mér fannst ég vera búin í hreinsunni vegna þess að ég var ekki lengur að vatnsfasta en auðvitað var ég ennþá að hreinsa út með því að drekka aðeins safa og því eðlilegt að finna svona fyrir því.


Dagur sex: djúsfasta

Síðasti dagur föstunnar, hallelúja. Það er ekki bara leiðinlegt til lengri tíma litið að vera að sötra á þessum söfum heldur líka að vera að stússast við að búa þá til. Dagurinn var ágætur, ég var enn að glíma við svima en leið að öðru leyti þokkalega og fann ekki fyrir miklum óþægindum, ekki fyrr en ég fór að sofa.


Það er eins og fastan vekji upp þá punkta í líkamanum sem eru eitthvað viðkvæmir og ég fann fyrir alls konar ónotum sem komu í veg fyrir að ég svæfi almennilega. Um miðja nótt gafst ég upp og tók verkjatöflu, sem varð til þess að ég sofnaði loksins og svaf til morguns.


Brjóta föstu

Þegar kemur að því að brjóta föstu og hvað það taki langan tíma, segir Hildur að miða eigi við hálfan dag fyrir hvern heilan dag af föstu, sem þýðir að við þurfum þrjá daga til að jafna okkur eftir sex daga föstu.


Hildur varaði við því að það taki jafnvel enn meiri viljastyrk til þess að brjóta föstuna en að fasta, því fólk freistist til þess að fá sér strax almennilegan mat, en það sé hættulegt því undirbúa þurfi meltinguna fyrir að byrja aftur að vinna. Ef það er ekki gert, er fastan til einskis og fólk er jafnvel á verri stað en það var fyrir föstuna vegna þess að það myndast svo mikið ójafnvægi í líkamanum.


Um hreinsunina

Hreinsunin tók á, en ekki jafn mikið og hún hefði gert ef ég hefði ekki verið undirbúin fyrir hana. Ég byrjaði á fjögurra vikna grunnámskeiði í apríl þar sem ég byrjaði smátt og smátt að taka mjólkurvörur, glúten, viðbættan sykur, koffín, áfengi, kjöt og fleira til út úr mataræðinu og hélt síðan áfram á framhaldsnámskeiðinu. Auk þess var tekinn einn undirbúningsdagur til þess að líkaminn væri klár fyrir föstuna þar sem aðeins mátti borða maukað grænmeti (safa og súpur).


Ég veit ekki hvort að ég eigi eftir að fasta svona aftur, enda er þetta alveg tíu daga ferli, en aðrir möguleikar eru að taka djúsdag einu sinni í viku sem Hildur mælir með til þess að viðhalda þessari hreinsun. Hún mælir einnig með því að fasta í 12 tíma á sólarhring til þess að gefa meltingunni hvíld, sem ég er raunverulega sjálf að gera nú þegar, með því að borða ekki eftir kvöldmat, sem kemur líka í veg fyrir að ég sé að snarla eitthvað á kvöldin að óþörfu.


Þegar ég var komin á fjórða dag var ég farin að hlakka verulega til þess að geta farið að borða aftur mitt sérhæfða fæði, sem ég er búin að vera á undanfarið og fannst ég náttúrulega áður vera að missa af ýmsu á því fæði. Ég held að þetta ferli verði til þess að ég verði almennt þakklátari fyrir mat og það sem ég hef, í stað þess að vera sífellt að óska þess að ég muni eignast eitthvað meira. Þetta var að minnsta kosti áhugaverð tilraun sem ég er búin að læra margt af og vonandi á ég eftir að sjá mun á mér til hins betra.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page