top of page

Styrkurinn sem felst í viðkvæmni

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Dec 6, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég var að enda við að lesa Sensitivity is the New Strong, eftir Anita Moorjani, en hún er rithöfundur, fyrirlesari og kennari sem byrjaði að fræða fólk um andleg málefni eftir að hún lést næstum því úr krabbameini.

Anita upplifði dauðastund sína og fann fyrir því hvernig það væri að vera hinum megin, þar sem hún hitti föður sinn sem sagði henni að hennar tími væri ekki komin, sem varð til þess að hún komst aftur til lífs og læknaðist fullkomlega af krabbameininu sem hefði átt að draga hana til dauða.


Anita hefur skrifað nokkrar bækur um sínar upplifanir en Sensitivity is the New Strong er bók fyrir fólk sem er næmt og á í erfiðleikum vegna þess. Slíkir einstaklingar eiga til dæmis auðvelt með að skilja hvernig öðru fólki líður, sem verður gjarnan til þess að það tekur þarfir annarra fram fyrir sínar eigin, með tilheyrandi álagi og heilsufarslegum afleiðingum. Í bókinni kennir Anita lesendum sínum hvernig það geti tekist á við slíkar aðstæður, sem og fleiri sem það gæti átt í erfiðleikum með, og gefur góð ráð.


Ég myndi kannski ekki segja að ég taki þarfir annarra fram yfir mínar eigin, þar sem ég hef nú þegar lært mikilvægi þess að þekkja muninn á mínum eigin tilfinningum og tilfinningum annarra, og geri mér auk þess grein fyrir því að það skiptir máli að ég setji sjálfa mig í fyrsta sæti í mínu eigin lífi. Ég er að sjálfsögðu boðin og búin til þess að aðstoða fólk þegar ég get, þegar um er að ræða einstaklinga sem myndu að sama skapi aðstoða mig ef svo bæri undir.


Þessi bók hjálpaði mér engu að síður að skilja hluti sem ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið, eins og hvernig ég geti upplifað meiri gleði. Mér finnst eins og ég sé aldrei nægilega glöð, jafnvel þó svo að ég geri hluti fyrir sjálfa mig, eins og að fara í heitt bað, hugleiða, fara út að ganga eða borða góðan mat, svo fá dæmi séu tekin. Ég hafði ekki fundið lausn á þessu en í bókinni segir Anita að leiðin til þess að upplifa gleði sé að elska sjálfan sig.


Ég get vel trúað því að ég muni hafa meira gaman af því sem ég er að gera ef ég elska sjálfa mig skilyrðislaust. Það kemur reyndar inn á annan punkt sem ég hef verið að velta fyrir mér, sem er það hvort að neikvæðar hugsanir geti laðað að manni neikvæðar upplifanir. Fólk sem hefur kynnt sér Law of Attraction eða lesið The Secret þekkir þá hugmyndafræði að það sé nauðsynlegt að hugsa jákvætt og sjá hlutina fyrir sér til þess að eignast það sem maður óskar sér.


Mér hefur hins vegar aldrei líkað við þá hugmynd að maður megi ekki hugsa neikvætt eða óttast framtíðina, því það þýði að slæmir hlutir muni koma fyrir mann. Anita segir einmitt að það að dæma sjálfan sig fyrir að hugsa neikvætt hjálpi engum. Þess í stað sé mikilvægt að samþykkja sjálfan sig eins og maður er, sama hvort að maður hugsi jákvætt eða neikvætt. Það séu nefnilega ekki hugsanir manns sem laða að manni hluti og aðstæður, heldur manneskjan sem maður er.


Ég er þakklát fyrir að hafa rekist á þessa bók því hún hefur hjálpað mér við að takast á við þær aðstæður sem ég er að ganga í gegnum þessi misserin. Mér finnst það sem Anita segir í bókinni ríma við mínar eigin upplifanir og finnst þægilegt að hugsa til þess að ég sé ekki að laða að mér erfiðleika þó svo að ég hugsi ekki jákvætt öllum stundum. Þess í stað get ég sett fókusinn á að þykja stöðugt vænna um sjálfa mig eins og ég er, í trausti þess að það verði til þess að ég upplifi meiri og meiri gleði í mínu lífi, svo lengi sem ég sé einlæglega ég sjálf.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page