Tilfinningaleg stjórnun
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jan 1, 2023
- 3 min read
Ég hef verið að hugsa mikið um emotional regulation, það hvernig maður fer að því að takast á við tilfinningar sínar.

Mér finnst merkilegt að við eigum ekki einu sinni almennilegt hugtak yfir þetta á íslensku (ég notast hér á eftir við „tilfinningaleg stjórnun“, þó mér finnist það ekki nógu góð þýðing), sem segir til um hversu lítið er fjallað um það.
Það er sem betur fer farið að ræða meira um samskipti, sérstaklega þegar kemur að atvinnumarkaðinum. Ég hef orðið vör við að það sé verið að bjóða upp á námskeið fyrir yfirmenn með áherslu á „mannlegu“ þætti stjórnandans, svo að þeir geti bætt starfsandann og menningu á sínum vinnustað, líkt og námskeið frá Símey sem kennir fólki m.a. að stjórna eigin tilfinningum og vera yfirvegað í samskiptum.
Mér finnst sjálfri fátt hafa gert jafn mikið fyrir mig og að læra á tilfinningar mínar. Það hefur hjálpað mér að skilja sjálfa mig betur og eiga í betri samskiptum við aðra. Engu að síður virðist tilfinningaleg stjórnun ekki vera almennilega rædd eða kennd. Tilfinningaleg stjórnun er eitthvað sem fólk ætti að læra í sínu uppvexti en margir gerðu það ekki vegna þess að uppalendur þeirra kunnu ekki að takast á við sínar eigin tilfinningar og gátu þar af leiðandi ekki leiðbeint börnum sínum.
Það er ekki við þá foreldra eða uppalendur að sakast, vegna þess að þeir lærðu heldur ekki tilfinningalega stjórnun af sínum foreldrum, enda er svo stutt síðan að fólk þurfti að gera sitt besta til þess að lifa af og hafði hvorki tíma né rúm til þess að ræða og tjá tilfinningar sínar. En nú erum við komin á þann stað að við eigum mörg hver fyrir nauðsynjum og getum því farið að huga að öðru en grunnþörfum okkar.
Hvernig förum við að því að læra tilfinningalega stjórnun? Ég myndi segja að það fyrsta væri að bjóða upp á námskeið fyrir verðandi foreldra, því þeir munu sjá um að ala upp næstu kynslóð. Annað skref væri að gera tilfinningalega stjórnun að hluta af kennsluefni í leikskóla- og kennaranámi, því það er fólkið sem vinnur með börnum. Það þriðja væri að kenna fullorðnum tilfinningalega stjórnun, svo það geti átt í betri samskiptum við fólkið í lífi sínu.
Tilfinningar hafa nefnilega áhrif á öll svið lífsins, vegna þess að þær koma upp í samskiptum við bæði ástvini manns og samferðarfólk almennt. Að læra tilfinningalega stjórnun gæti breytt svo mörgu í hinu daglega lífi fólks til hins betra, vegna þess að margir eiga í erfiðum samskiptum við aðra vegna þess að það er ekki meðvitað um hversu mikil áhrif tilfinningar þeirra hafa á viðbrögð þess því sem kemur upp í dagsins önn.
Tilfinningaleg stjórnun felur einmitt í sér að bregðast ekki við þegar maður er í uppnámi. Það er það fyrsta sem gerist þegar eitthvað óvænt kemur upp á, að tilfinningar manns geta nánast borið mann ofurliði. En það hjálpar engum að bregðast við í tilfinningalegu uppnámi. Það er mikilvægt að læra að róa sjálfan sig niður, leyfa tilfinningunum að líða hjá, til þess að geta metið aðstæður og brugðist við síðar og þá af yfirveguðu ráði.
Það er ekki auðvelt að breyta ósjálfráðum viðbrögðum manns en til þess eru tæki og tól líkt og hugleiðsla, djúpöndun, núvitund og sjálfsmeðvitund (e. self-awareness). Það hjálpar að kynnast sjálfum sér og vera meðvitaður um það sem maður er viðkvæmur fyrir. Ég veit t.d. með sjálfa mig að ég þoli það illa þegar mér finnst fólk tala niður til mín eða finnst það ekki skilja það sem ég er að segja (ég upplifi þá að finnast ég ekki vera séð og heyrð) og veit þar af leiðandi að það er eitthvað sem ég þarf að fylgjast með í samskiptum mínum við aðra.
Fólk á það til að bregðast ókvæða við, jafnvel þegar það sér síðar að um sakleysilegt atvik var að ræða, vegna þess að fyrstu viðbrögð þess byggja á gömlum særindum og atvikum úr fortíðinni. Þetta leiðir oftar en ella til misskilnings, sem getur valdið alls konar erfiðleikum í samskiptum við maka, börn, vini, yfirmenn eða samstarfsfólk. Það er því til mikils að vinna að læra tilfinningalega stjórnun, bæði persónulega en einnig fyrir okkur sem samfélag.
Comentarios