top of page

Tilfinningaleg úrvinnsla

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jul 27, 2023
  • 4 min read

Í samfélagi okkar er manni hvergi kennt að takast á við tilfinningar sínar, nema maður leiti eftir því sjálfur.

Það ætti að vera kennt frá því að við erum í leikskóla, enda er það að kunna á tilfinningar sínar algjört grundvallaratriði til þess að geta tekist á við sjálfan sig og það sem kemur upp á í manns daglega lífi. Ég hef varið hálfri ævinni í að læra á sjálfa mig og mína líðan, sem mér tókst með því að leita aðstoðar, mestmegnis í gegnum óhefðbundnar lækningar og andleg málefni.


Leiðin sem ég fór var að byrja í viðtalsmeðferð hjá sálmeðferðaraðila og fara á sama tíma reglulega í heilun. Það var sambland af þessu tvennu sem gerði mér kleift að komast í tengsl við mínar tilfinningar og líðan og læra að fá fyrir þær heilbrigða útrás og vinna þar með úr þeim áföllum og erfiðleikum sem ég hafði gengið í gegnum sem barn og unglingur.


Það er ótrúlega margt sem ég hef lært um tilfinningalega úrvinnslu, af allri þeirri sjálfsvinnu sem ég hef unnið síðastliðin 12 ár. Fyrst og fremst lærði ég að maður á að fá útrás fyrir tilfinningar sínar þegar þær koma upp, vegna þess að þær eru viðbrögð við atvikum sem maður á að leyfa sér að finna. Ef maður gerir það ekki, sitja þær eftir í kerfinu, vegna þess að tilfinningar og áföll fara ekki neitt heldur geymast í líkamanum.


Ég lærði að ég bjó yfir alls konar tilfinningum sem ég vissi ekki einu sinni af, vegna þess að ég var búin að loka á þær, sem þýddi að ég þurfti að vinna með þær löngu síðar. Það er annað hvort hægt að gera það meðvitað, sem felst í því að setjast niður í þeim tilgangi að vera með sjálfum sér og leyfa því að koma upp sem vill koma upp á yfirborðið, eða með því að takast á við þær tilfinningar sem koma upp þegar eitthvað gerist hjá manni í dagsins önn sem ýtir við þeim.


Ég lærði að það er erfitt að upplifa sársaukafullar tilfinningar en þær líða hjá ef maður gefur þeim rými. Tilfinningar eiga að flæða í gegnum mann. Það hjálpar ekki að ýta þeim í burtu eða rjúka af stað og fá sér eitthvað að borða eða drekka, kaupa sér eitthvað, fara í ræktina eða gera hvað sem maður er vanur að gera til þess að forðast það sem er að eiga sér stað. Mín reynsla af því að finna tilfinningar mínar er sú að það sé gjarnan ljúfsárt, því þó það sé vont á meðan á því stendur, þá er samt svo gott að fá útrásina og því fylgir jafnvel vellíðan eftir á.


Ég lærði að sitja með tilfinningum mínum í stað þess að flýja þær eða deyfa. Það eru leiðir til þess að fá fyrir þær útrás, t.d. með því að skrifa hlutina frá sér, leyfa tárunum að renna eða öskra í kodda eða út á haf. Með hjálp fagaðila lærði ég að vera til staðar fyrir sjálfa mig, ef ég hef engan sem ég get leitað til á því augnabliki sem ég þarfnast þess, en í því fólst að læra að vera mitt eigið foreldri svo ég geti huggað sjálfa mig og hughreyst ef þess þarf.


Ég lærði að róa sjálfa mig niður þegar ég kemst í tilfinningalegt uppnám, sem orsakast yfirleitt af kveikjum, óvæntum atvikum sem ýta við gömlum sárum innra með manni. Þó svo að það sé mikilvægt að finna tilfinningar sínar, eru þær í þessum tilvikum yfirleitt ósjálfráð viðbrögð sem eru ekki endilega í samræmi við það sem átti sér raunverulega stað. Þá er betra að bíða með að bregðast við, þangað til uppnámið er liðið hjá og rökhugsunin tekin aftur við, og skoða frekar tilfinningarnar sem komu upp í þeim aðstæðum við betra tækifæri.


Ég lærði að það krefst hugrekkis að vera til staðar fyrir sjálfan sig. Það þarf mikið meiri styrk til þess að leyfa sér að finna tilfinningar sínar og vera viðkæmur, miklu meira en að ýta þeim í burtu. Þessar tilfinningar eiga gjarnan uppruna sinn frá yngri hluta af manni sjálfum, sem þarfnast þess að vera séður og heyrður. Oft felst sársaukinn einmitt í því að það hafi enginn verið til staðar til þess að hlusta, sýna skilning, hugga, en heilunin felst í því að geta gert það sem fullorðinn aðili fyrir sjálfan sig. Það er svo gott að geta sýnt sjálfum sér hlýju og kærleika.


Ég lærði að bera meiri virðingu fyrir tilfinningum mínum. Þær eiga rétt á sér, enda er yfirleitt einhver ástæða fyrir því hvernig manni líður. Tilfinningar geta gefið manni dýrmætar upplýsingar um það sem er að eiga sér stað í lífi manns; óánægja getur bent til þess að það sé kominn tími til þess að gera breytingar á einhverju sviði lífs manns, reiði getur sagt til um hvenær farið er yfir mörkin manns o.s.frv. Það er mikilvægt að við höfum áhuga á því hvernig okkur líður og hvað er að gerast innra með okkur.


Í dag kann ég að gefa sjálfri mér þetta rými og vera til staðar fyrir sjálfa mig en ég vildi óska þess að mér hefðu verið kennd þessi atriði frá byrjun. Þessir hlutir sem ég nefni eru ekki atriði sem hvert og eitt okkar á að þurfa að læra sjálft, mögulega með aðstoð sálfræðinga eða ráðgjafa, heldur eitthvað sem við ættum öll að læra svo við getum skapað saman betra samfélag. Það myndi muna svo miklu um líðan okkar allra, gera okkur betri í samskiptum og gera okkur það betur kleift að takast á við það sem kemur upp á lífinu.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page