Vertu þú sjálfur
- Guðný Guðmundsdóttir

- Dec 14, 2010
- 7 min read
Updated: Oct 16, 2020

Ástæðan fyrir því að fólk les endalausar greinar um samskipti kynjanna, í bókum, tímaritum, á netinu, til dæmis á einmitt þessum vef, er sú að það hefur ekki hugmynd um hverjar reglurnar í samskiptum kynjanna eru, eða hvernig það á í ósköpunum að haga sér í leit sinni að réttu persónunni fyrir sig.
Ég ætla að voga mér, þrátt fyrir öll þau óteljandi ráð sem er að finna um þessar aðstæður, að halda því fram að lausnin sé einföld. Þú verður að líta inn á við. Ástæðan fyrir því að þér gengur illa að finna fólk sem þú átt samleið með er ekki sú að það er ekki til neitt álitlegt fólk á þínum aldri á Íslandi. Ástæðan er sú að þú hefur ekki nógu mikla trú á sjálfri þér. Vinkona mín sagði við mig um daginn að það sem hana langaði mest í í jólagjöf væri meira sjálfstraust. Þar hitti hún nefnilega naglann á höfuðið.
Ég hef alltaf, frá því ég man eftir mér, verið kvíðin og ótrúlega, ótrúlega feimin. Ég lagði mig alla fram við það að vera eins mikil mús og hægt væri, að klæða mig á lítt áberandi hátt, að tala lágt og eins lítið og ég komst upp með svo að enginn myndi nokkurn tímann taka eftir mér. Því ef það tók ekki eftir mér, þá gat það ekki gert lítið úr mér. Það hefur alltaf verið minn helsti ótti, að ef ég vekti á mér einhverja athygli þá gæti einhver hlegið að mér og þeim mistökum sem ég myndi óneitanlega gera. Það þyrfti ekki að vera flókið, ég gæti dottið, eða sagt eitthvað heimskulegt, og allir myndu hlægja…sem myndi svo sannarlega verða til þess að heimurinn myndi hrynja. Heimurinn minn að minnsta kosti.
Þegar ég var sextán ára og stóð frammi fyrir því að þurfa að flytja í stórborgina Reykjavík til þess að fara í framhaldsskóla þá ákvað ég að þetta gengi ekki lengur. Ég sá fyrir mér hvernig líf mitt yrði ef ég gerði engar breytingar: ég myndi aldrei þora að segja mína skoðun á neinu, aldrei þora að klæða mig á áberandi hátt, aldrei kynnast nýju og skemmtilegu fólki þar sem ég væri of hrædd til þess að tala við það. Ég myndi ekki finna mér skemmtilega vinnu þar sem ég væri of smeyk við það að prófa eitthvað nýtt, of smeyk til þess að fara út úr þægindahringnum þar sem mér leið svo vel, eða, ekki beint of vel, en þar myndi ég þó vita við hverju ég mætti búast.
Ég væri of hrædd til þess að gera nokkurn skapaðan hlut af viti. Ég tók því þá ákvörðun að gera allt sem ég gæti til þess að breyta sjálfri mér, svo ég ætti séns á að lifa „eðlilegu“ lífi, svo ég gæti lifað hvern dag án þess að kvíða fyrir öllu því hræðilega sem gæti gerst ef þetta eða hitt myndi kannski, mögulega koma fyrir. Ég meina, þið sjáið hætturnar sem felast hreinlega í því að vera á lífi: sætur strákur gæti tekið upp á því að tala við mig. Eða horfa á mig. Guð minn góður.
Hvað getur verið hættulegra en sætur strákur? Það gefur auga leið að hann hlýtur að vera fullkominn. Og ef hann talar við mig þá gæti hann komist að því hversu ófullkomin ég er. Þið sjáið strax að það er best að forðast það að koma sér í aðstæður sem slíkar líkt og pestina.
Þannig að. Ég fór ein, alein, í framhaldsskóla. Þið getið ímyndað ykkur hræðsluna sem yfirtók mig þegar að því kom að taka skrefið inn fyrir þröskuldinn á þessum stórhættulega stað, fullum af ókunnugu fólki sem myndi líta á mig og sjá strax að ég væri ekki þess virði að tala við, ég hefði svo sannarlega ekki frá neinu merkilegu að segja.
Ég get sagt ykkur það að á þessu augnabliki þá óskaði ég þess að ég hefði tekið með mér minn versta óvin, bara svo ég gæti hengt mig utan í hann og notað hann til þess að fela mig fyrir öllu þessu nýja fólki. En einhvern veginn lifði ég það af. Það tók tvö ár en að lokum átti ég meira að segja stóran stelpuvinahóp til þess að sitja með í frímínútum. Ekki það að mér hafi dottið í hug að segja þeim skoðanir mínar. En miðað við aðstæður þá tókst mér að skemmta mér ágætlega það sem eftir var menntaskólans.
Engu að síður þá fannst mér ekki ganga nógu vel í þessari herferð til þess að verða að þess konar manneskju sem gat lifað lífinu án þess að þjást af þessum yfirþyrmandi kvíða sem kvaldi mig á hverjum degi. Nú þegar ég lít til baka þá skil ég ekki hvernig mér tókst yfirhöfuð að fúnkera í samfélaginu.
Ekki það að það hafi verið hægt að sjá utan á mér að eitthvað væri að. Þvert á móti þá gekk mér, og hefur alltaf gengið, ótrúlega vel í skóla og vinnu, nóg til þess að fólk hefur notað mig sem dæmi um hvernig fólk eigi að haga lífi sínu. „Hún er feimin.“ „Hún segir ekki mikið.“ Þessar lýsingar fylgdu með í kjölfarið. En þið vitið, það er ekkert að því að vera smá feimin, smá til baka. Það þýðir ekki að neitt sé að.
Nei, það þýðir ekki að neitt sé að. Það hafa ekki allir áhuga á því að vera endalaust blaðrandi, sem er fullkomlega skiljanlegt. En að vera dauðhrædd við að vera þú sjálfur, að þora ekki að gera hlutina sem þig langar til þess að gera, að upplifa drauma þína, það er eitthvað að því. Og þá var komið að næsta skrefi: að voga mér ein til útlanda, sem hræddi mig meira en allt því það þýddi að ÉG neyddist til þess að gera allt sem þarf að gera í slíkum aðstæðum.
Tala við ókunnuga. Vita hvert ég ætti að fara, hvað ég ætti að gera. Læra að spyrjast fyrir. Yfirstíga feimnina við það að tala annað tungumál, sem ég kunni þó vel enda hef ég alltaf litið á mig sem málamanneskju. Kynnast nýju fólki. Treysta ókunnugum. Jesús minn eini, treysta ókunnugum? Ímyndið ykkur hætturnar sem fylgja því. Ég treysti sko ekki fólki án þess að það væri búið að sýna það og sanna, eftir langt og strangt ferli, að hægt væri að treysta því fyrir hernaðarleyndarmálum mínum.
Þið eruð kannski farin að velta því fyrir ykkur hvort að ég hafi ekki eitthvað verið farin að breytast eftir þetta allt saman og svarið er: jú, að sjálfsögðu. Það er nefnilega þannig að þegar við þorum að taka fyrsta skrefið út í hinn stóra og hættulega heim, þorum að hætta á því að allt fari fjandans til, og það gengur svo allt eins og í sögu…. Þá er hægt að sjá fyrir sér að líkurnar á því að næsta áhætta muni einnig ganga upp séu bara nokkuð góðar, sem gerir það auðveldara að halda áfram að taka næsta skref og næstu áhættu. Svona gengur þetta áfram þangað til markmiðinu er náð.
Þegar ég var 21 árs og búin að lifa það af að búa erlendis í þrjá mánuði algerlega sjálf, og fara þess utan í fleiri ferðir erlendis, þá fór ég til London á námskeið hjá Anthony Robbins. Ef þið vitið ekki hver hann er þá er hann sjálfshjálpargúru líkt og Dale Carnegie. Eftir einn dag hjá honum þá gekk ég ósködduð yfir glóandi kol (já, í alvöru). Og það hafði þau áhrif sem hann ætlaðist til, það er nefnilega þannig að þegar þú hefur gengið yfir glóandi kol þá hugsarðu ósjálfrátt með þér að eftir það sé fátt sem þú getir ekki gert.
Mórallinn í þessari sögu er: eftir mörg ár, og eftir að hafa margsinnis farið út úr þægindahringnum og látið drauma mína rætast án þess að nokkuð hræðilegt gerðist þá áttaði ég mig loksins á þessu. Að kvíðinn sem ég upplifði daglega hefði allt með það að gera að mér fannst ég ekki vera nógu góð. Hann kom til af því að mér fannst, án þess að ég vissi það sjálf, mér fannst í fúlustu alvöru að ég ætti að vera einhver önnur en ég var. Að ef að ég liti öðruvísi út, eða hefði önnur áhugamál, og hugsaði öðruvísi um hlutina, að þá fyrst myndi ég vera nógu góð. Það segir sig sjálft að það að ganga um daglega trúandi þessu um sjálfa sig býður ekki upp á sálarró. Að trúa því í alvöru að það sem þú ert sé ekki nógu gott er bara kjánalegt. Og þar sem að ég hef alltaf verið skynsöm manneskja þá neita ég að trúa svona kjánalegum hlut.
Í fyrsta skipti á ævi minni þá trúi ég núna þessu: að ég sé ágæt eins og ég er. Að annað fólk sé ekki betra en ég. Að við séum öll bara manneskjur, stundum mismunandi, oft mikið líkari en við höldum. Og ég get sagt ykkur að það sem við þurfum fyrst og fremst á að halda til þess að vera aðlaðandi í augum hins kynsins er þetta: að trúa því í fyllstu alvöru að við eigum rétt á okkur. Að trúa því að við séum skemmtileg, og áhugaverð, og gáfuð, og myndarleg, og að fólk sé heppið að eiga okkur að. Og að trúa því 100%, ekki bara vita að okkur eigi að finnast þetta heldur trúa því í alvöru, að það verði fullkomlega í lagi okkar vegna þó að við finnum aldrei þessa einstöku manneskju sem muni elska okkur eins og við erum. Af því að á meðan VIÐ elskum OKKUR SJÁLF eins og við erum, þá er lífið nokkuð gott.
Frá því að ég áttaði mig á þessum sannleika þá hefur ýmislegt gerst. Ég greip tækifærið sem mér gafst til þess að hefja það sem ég lít á sem starfsframa minn, þrátt fyrir að mín langa skólaganga sé það eina sem ég þekki og kann (og nota bene þá væruð þið ekki að lesa þetta núna ef ég hefði látið það vera að sækja um að komast í starfsþjálfun á bleikt.is).
Ég segi það sem mér finnst, þegar það á við, án þess að það þurfi nokkuð hugrekki af minni hálfu til.
Í gær tók ég í fyrsta skipti áhættu með hárið á mér og breytti hárgreiðslunni minni án þess að geta vitað hvernig hún kæmi út. Og það var skyndiákvörðun, tekin í hárgreiðslustólnum, ótrúlegt afrek hjá manneskju sem hefur aldrei gert neitt án þess að vera búin að hugsa það vel og vandlega út (því það er að sjálfsögðu algjörlega nauðsynlegt ef koma á í veg fyrir að eitthvað hræðilegt gerist). Ég kaupi mér föt sem mig langar í án þess að velta því fyrir mér hvað öðrum muni finnast um þau.
Ég er einhleyp, og mér er alveg sama. Ég á yndislega fjölskyldu og frábæra vini og er rosalega ánægð með námið mitt/starfsþjálfunina mína. Ég er hamingjusöm. Og ef það bíður mín einhver draumaprins þarna úti þá verður hann að sjá um að leita að mér. Ég get sagt ykkur það af eigin reynslu, og ég get ekki lagt meiri áherslu á það: Að það að vera ánægð með sjálfa mig og líða loksins vel í eigin skinni breytti lífi mínu. Er ekki komin tími til þess að þú breytir þínu?
Þessi pistill birtist upphaflega á bleikt.is



Comments