top of page

Virk hlustun í öruggu rými

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jun 21, 2023
  • 3 min read

Ég hef í gegnum tíðina orðið leið og örg þegar ég hef reynt að deila því sem ég er að takast á við með fólki, vegna þess að ég hef ekki fengið þau viðbrögð sem ég hefði viljað fá eða þarfnaðist mest.

Eins og flestir þarfnast ég þess stundum að fá útrás fyrir það hvernig mér líður, en ég hef rekið mig á það að fólk hefur tilhneigingu til þess að bregðast við slíku með því að gefa ráð eða reyna að „laga“ mann. Það er mismunandi eftir tilefni hvers fólk þarfnast þegar það deilir tilfinningum sínum með öðrum, en mín reynsla er sú að það sem fólk hefur kannski mesta þörf fyrir er að upplifa að það sé séð og heyrt.


Ég veit með sjálfa mig að ég er svo mikill pælari að ég veit yfirleitt hvað það er sem ég þarf að gera í stöðunni sem ég er í. Mig vantar í sjálfu sér ekki ráð, vegna þess að ég er þegar búin að hugsa málið fram og til baka, en þarf engu að síður á því að halda að deila vandamálum mínum með öðrum. Þegar fólk bregst við með því að segja mér hvað ég eigi að gera, líður mér bara verr fyrir vikið, eins og ég sé aumingi fyrir að hafa ekki einfaldlega leyst málið.


Í staðinn fyrir ráðleggingar þarfnast ég þess frekar að geta sagt fólki hvernig mér líður og fá skilning hjá þeim sem hlustar, á því af hverju ég eigi erfitt með framkvæmdina. Ef ég þarf t.d. að eiga erfitt samtal við einhvern, af hverju get ég ekki komið mér í það? Svarið er oftast ótti við viðbrögð eða afleiðingarnar af því að eiga það samtal. Frekar en ráð, þarf ég oft á tíðum aðstoð við að kafa dýpra ofan í tilfinningar mínar og tækifæri til þess að skoða betur hvað sé að eiga sér stað innra með mér.


Þegar mig vantar að gefa sjálfri mér þetta rými til þess að vinna með tilfinningar mínar finnst mér gott að fara í heilun til konu sem ég er búin að vera hjá í mörg ár og þekkir mig vel. Þar get ég deilt því hvernig mér líður, án þess að þurfa að rökræða tilfinningar mínar, fá óumbeðin ráð, eða upplifa að ég sé dæmd eða gagnrýnd fyrir mínar upplifanir og líðan.


Heilun gengur að miklu leyti út á að bjóða upp á þetta athvarf, þetta örugga rými, þar sem fólk getur leyft sér að vera með tilfinningum sínum. Á sama tíma er það staður fyrir slökun og hvíld, sem er stundum nóg til þess að komast í heilunarástand. Heilari hleypir vissulega heilunarorku í gegnum sig, en hæfni hans til þess að sitja með með fólki sem er að upplifa sterkar tilfinningar og veita því stuðning, án þess að reyna að bjarga því frá tilfinningum sínum, er alveg jafn mikilvæg.


Heilarinn minn, sem var einn af aðstoðarkennurunum í sjaman-náminu mínu, kenndi okkur einmitt virka hlustun, en hún felst í því að geta setið með fólki og hlustað á það sem það hefur að segja, án þess að grípa fram í fyrir því, reyna að gefa því ráð eða laga það eða þeirra líðan. Mér finnst yndislegt að geta leitað til hennar, en að sjálfsögðu væri gott að hafa einhvern í mínu nærumhverfi sem ég gæti spjallað við þegar ég þarf á því að halda.


Það hafa heldur ekki allir tök á því að leita sér hjálpar, svo það væri til mikils bóta ef við gætum verið til staðar fyrir hvert annað. Við þurfum ekki að vera sálfræðimenntuð til þess að geta boðið fólkinu í lífi okkar þetta rými. Það eina sem þarf er að sýna samkennd, sem felst í því að hlusta, bjóða upp á öruggt rými, tilfinningaleg tengsl og gefa viðkomandi til kynna að hann eða hún sé ekki einn/n í veröldinni.


Þetta getur fólk aðeins gert fyrir aðra ef það hefur lært að sitja með sínum eigin tilfinningum. Margir eiga erfitt með að vera í návígi við sársauka annarra, vegna þess að það ýtir við þeirra eigin. Fólk sem hefur unnið í sjálfu sér er fært um að vera rólegt og yfirvegað á meðan aðrir eru að takast á við erfiðar tilfinningar. Að vera góður hlustandi, manneskja sem sýnir öðrum kærleika og hlýju, er hæfileiki sem hægt er að rækta. Þess vegna er sjálfsrækt svo mikilvæg, því hún gerir okkur kleift að vera til staðar fyrir okkur sjálf, sem og aðra.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page