Að gefa minn persónulega vilja eftir
- Guðný Guðmundsdóttir

- Jul 11, 2024
- 3 min read
Updated: Jul 31, 2024
Það er margt sem hefur komið mér á óvart á mínu andlega ferðalagi, en eftir því sem ég kemst lengra áleiðis á minni braut, þá uppgötva ég alltaf meir og meir að hlutirnir eru ekki eins og ég hélt.

Flestir sem byrja í andlegum málum halda að það muni gera líf þeirra betra, en það er ekki alls kostar rétt. Það er réttara að lífið gengur upp og ofan, en eftir því sem maður vinnur meira í sjálfum sér, er maður betur í stakk búinn til þess að takast á það sem kemur upp.
Ég skrifaði t.d. nýlega um upplifun mína af vonleysi, sem ég hefði getað túlkað á neikvæðan hátt, en var raunar stórt skref á minni vegferð, en með því að missa vonina hætti ég að bíða eftir því að hlutirnir yrðu einhvern veginn betri í framtíðinni.
Að halda að lífið verði einhvern tímann fullkomið er tálsýn, vegna þess að það taka alltaf ný verkefni við í lífinu. Að vera upptekinn af því að reyna að leysa öll vandamál heimsins, eða því sem er að plaga mann þegar kemur að hlutum eins heilsu, samböndum og fjárhag, getur verið leið til þess að forðast að fara inn á við.
Fólk hefur tilhneigingu til þess að gera allt sem það getur til þess að gera allt “rétt” í von um að finna ákveðið öryggi eða komast á þann stað að allt verði í lagi það sem eftir er. Það er tilbúið til þess að leggja ansi mikið á sig til þess að forðast að vera hér og nú, og takast á við lífið eins og það er.
Ég veit hvernig það er, vegna þess að ég var sjálf hrædd við að gefa eftir, en svo var ég bara orðin of þreytt til þess að gera það ekki. Ég var orðin uppgefin af því að viðhalda þessum áhyggjum og orðið sama þó svo að jörðin myndi hverfa undir mér og að ég myndi falla til (egó) “dauða” míns.
Ég vissi ekki hvað myndi gerast ef ég sleppti tökunum af þessum áhyggjum öllum sem ég hafði – hvað yrði þá eftir? Hvað ef ég er ekki þessi manneskja með þessi vandamál? Hvað ef ég hætti að velta mér upp úr fortíðinni og hætti að hafa áhyggjur af framtíðinni, hvað geri ég þá?
Hvað gerist ef ég hætti að reyna að stjórnast í því hvernig lífið fer? Ef ég hætti að stjórnast í hlutum sem ég hef enga stjórn á, hvað gerist þá? Egóið segir að ef ég sleppi tökunum á mínum persónulega vilja, þá muni ekkert gerast. Óttinn segir að ef “ég” láti ekki hlutina gerast, þá muni ég ekki afreka neitt.
Á ákveðnum tímapunkti hætti ég hins vegar að vera hrædd og upplifði frekar tilhlökkun við tilhugsunina um að gefa eftir. Ég fór að finna hversu mikla slökun það fól í sér. Það ótrúlega er, að ég komist að því að lífið haldi áfram þó að ég hafi ekki stöðugar áhyggjur eða reyni að stjórna hvernig því vindur fram.
Að lifa svona þýðir ekki að ég takist ekki við það sem kemur upp í dagsins önn, en ég bíð ekki eftir því að allt verði fullkomið einn daginn eða þeim tímapunkti þegar ég þurfi aldrei að takast á við nein verkefni lengur. Þau verða alltaf til staðar, en ég þarf ekki að búa til vandamál úr þeim eða taka þeim persónulega.
Það þýðir ekki heldur að ég viti hvað ég eigi að gera við sjálfa mig núna, þegar ég veit að það er til einskis að hugsa of mikið um framtíðina eða velta mér upp úr fortíðinni. Ég veit ekki hvað tekur við, en það verður eitthvað nýtt – tækifæri til þess að lifa lífinu á annan hátt.
Ég veit stundum ekki hvort ég sé að koma eða fara, en þá þykir mér best að leyfa tímanum að líða og sjá til hvað verður. Ég hreyfi mig ekki fyrr en það verður skýrara fyrir mér hvað sé best að gera næst. Það er ekki auðvelt að gefa eftir, en það er vel þess virði, vegna þess að það felur í sér svo mikið frelsi að ætlast ekki til þess að hlutirnir fari á þann veg sem minn persónuleiki telur best.



Comments