top of page

Ástundun andlegrar iðkunar

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 15, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Mér finnst áhugavert að fyrir nokkrum vikum síðan hvöttu bæði hugleiðslukennararnir mínir sem og kennarann minn í sjaman náminu mínu okkur nemendurna til þess að taka upp andlega iðkun á hverjum degi.

Lífið breytist sjaldnast á einu andartaki, yfirleitt er sá árangur sem maður nær og þær jákvæðu breytingar sem verða að veruleika afleiðing af mörgum litlum skrefum. Ég hef sett mér það markmið að gera eitthvað lítið á hverjum degi sem hefur jákvæð áhrif á líf mitt, enda er miklu líklegra að ég haldi mig við það ef ég er ekki að reyna að sigra heiminn.


Ég hef fjallað áður um tilraun mína til þess að koma heilbrigðum venjum upp í daglega rútínu, en ég byrja þessa dagana á því að fá mér engiferskot í byrjun dags og gera sólarhyllingu, æfingu sem ég lærði af hugleiðslukennurunum mínum sem felur í sér að sækja kraft í sólina (jafnvel í niðamyrkri). Yfir daginn geri ég æfingu í Duolingo, þar sem ég er rifja upp spænskuna sem ég lærði í menntaskóla, tek 15-20 mínútna hugleiðslu, les einn kafla í bók og svo erum við að reyna að koma því í vana heima hjá mér að fara í stutta gönguferð fyrir eða eftir kvöldmat.


Lífið samanstendur svona af hversdagsdögum, sem virka kannski ekki merkilegir einir og sér, en með því að koma sér upp daglegum venjum kemst maður smátt og smátt skrefi nær markmiðum sínum. Jafnvel á þeim dögum þegar ég er löt, næ ég engu að síður að afreka það sem skiptir mig mestu máli; að hugleiða, hreyfa mig og sinna mínum hugðarefnum. Það skiptir engu máli þó það taki mig mánuð að lesa bókina sem ég er að lesa, eða þó ég hreyfi mig ekki mikið, því ég geri að minsta kosti alltaf eitthvað smá á hverjum degi.


Það sama gildir um andlega iðkun, það er ekki nauðsynlegt að hugleiða í tíu klukkustundir á hverjum degi, en það er mikilvægt að gera eitthvað á degi hverjum, sama hversu lítið það er.


Það eru líka svo ótal margar leiðir til að sinna andlegri iðkun, til að mynda að setja sér ásetning fyrir daginn, hugleiða, iðka þakklæti, vera meðvitaður um andardráttinn, drekka nóg af vatni, fara í gönguferð í náttúrunni, stunda hreyfingu eða vera á einhvern hátt í tengslum við líkamann, hafa gaman með því að hlægja, syngja, lesa eða hlusta á tónlist, taka til, hafa fallegt í kringum sig, hreinsa heimilið með sage, hugsa fallega til fólks, dæma engan eða ekkert, vera í þögn eða æfa sig í því að sleppa tökunum.


Það eru aðeins nokkrar vikur síðan ég byrjaði að tækla hlutina svona, með því að gera minna heldur en meira, en það hefur orðið til þess að mér hefur tekist ágætlega að sinna þessum verkefnum undanfarið og ég finn hvað það gerir mér gott.


Þegar ég hef ekki verið dugleg við að viðhalda góðum venjum dagsdaglega, hefur það eitt og sér að finnast ég ekki vera nógu dugleg, verið nóg til þess að draga mig niður. Það að viðhalda góðum venjum hefur sérstaklega áhrif á tímabilum þegar erfiðleikar bjáta á, því það hjálpar svo mikið að geta sagt við sjálfan sig að þrátt fyrir erfiða tíma sé eitthvað jákvætt að eiga sér stað, að ákveðinn árangur sé að nást sem muni verða til þess að það birti að lokum til.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page