top of page

Endir og nýtt upphaf

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Feb 1, 2022
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Það er stundum talað um að áramót veiti manni tækifæri til þess að byrja upp á ný en ég tók það ansi bókstaflega þetta árið.

Ég tók nefnilega eitt stærsta þroskastökk sem ég hef tekið á ævi minni um áramótin, sem er kaldhæðnislegt þar sem ég hafði aðeins nokkrum dögum áður skrifað pistil um óþolinmæði og mikilvægu litlu skrefanna á manns sjálfsræktarferðalagi.


Ég hef upplifað nokkur svona „aha moment“, þar sem ég skil sjálfa mig og aðstæður mínar skyndilega mun betur, en það er nákvæmlega það sem gerðist þarna yfir áramótin. Ég veit ekki hvað það var sem olli því, en allt í einu gufuðu upp þær áhyggjur sem ég hef lengi haft af því að því að ég væri ekki nógu góð eins og ég er, áhyggjur mínar af því sem myndi gerast ef ég myndi leyfa mér að stíga fram og vera séð.


Mér fannst allt í einu ekkert eðlilegra að ég væri nákvæmlega eins og ég er, að ég hefði jafn mikinn rétt til þess að vera til og tjá hugsanir mínar og upplifanir eins og hver annar. Þetta tímamótaskref kemur í kjölfarið af erfiðum tíma í mínu lífi, tímabili sem var töluvert lengra en ég kærði mig um. Það er hins vegar mín reynsla að svona framfarir eigi sér gjarnan stað eftir tímabil þar sem ekkert virðist ganga upp hjá manni og vonleysið blasir við.


Ég held að það sé einmitt ástæðan fyrir því að hlutirnir hafa ekki gengið nógu vel hjá mér leng vel, að minnsta kosti urðu aðstæður mínar til þess að ég fór að spyrja sjálfa mig alls konar spurninga. Þær urðu þar af leiðandi til þess að ég fór að sjá hlutina í nýju ljósi, en ég neyddist hreinlega til þess að trúa því og treysta að allt væri eins og það ætti að vera.


Ég vissi svo sem allan tímann að lausnirnar við vandamálum mínum væru ekki að finna hið ytra, heldur með því að líta inn á við og vinna úr því sem þar er að finna. Ég get ekki stjórnað aðstæðum mínum, en ég get stjórnað því hvernig ég bregst við. Ég notaði tímann þar af leiðandi til þess að vinna mikið í sjálfri mér, sem varð á endanum til þess að ég fór að sjá breytingar á lífi mínu, ekki aðeins innra með sjálfri mér heldur einnig hið ytra.


Á sama tíma og ég fór að sjá jákvæðar breytingar á líðan minni og hegðun, fékk ég nefnilega loksins atvinnu eftir langtímaatvinnuleysi. Ég var búin að reyna að sækja um svipuð störf og ég hafði unnið áður án þess að nokkuð gengi upp, þegar ég fékk á endanum vinnu sem verkefnastjóri stafrænna miðla hjá Geðhjálp, sem hentar mér afar vel þar sem ég hef mikinn áhuga á geðheilsu og geðrækt.


Mér finnst frábært að vera komin í vinnu þar sem ég vinn að verkefnum sem ég hef mikla trú á að geti orðið öðrum til góðs, auk þess sem ég finn að þetta sé vinnustaður þar sem ég get verið ég sjálf og deilt því sem ég hef fram að færa. Þessar jákvæðu breytingar sem ég er að sjá á mínu lífi sanna fyrir mér að það sé hægt að vinna úr áföllum og erfiðleikum, að komast á þann stað að lifa lífinu eins og manni var alltaf ætlað.


Þetta erfiða tímabil hefur líka sýnt mér fram á að ég þurfi ekki alltaf að vera að stjórnast svona í hlutunum og reyna að stýra málum þannig að þau fari í ákveðinn farveg, sem ég er búin á ákveða fyrirfram að sé bestur og réttastur fyrir mig. Það getur nefnilega vel verið, að það sem virðist ganga illa hjá manni sé engu að síður akkúrat það sem maður þarfnast á þeim tímapunkti, og sé til þess gert að koma manni þangað sem manni er ætlað að fara.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Commenti


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page