top of page

Hættur í hinum andlega heimi

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • May 17, 2022
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Í vikunni horfði ég á nýjasta þáttinn af Kompás, þar sem fjallað var um ofbeldið sem fyrirfinnst í hinum andlega heimi.

Mér finnst þetta vera afar þörf umræða, enda er það alveg satt að það er ekkert regluverk í kringum þessi mál, sem þýðir að það getur raunar hver sem er stimplað sig sem andlegan leiðbeinanda og boðið upp á ráðgjöf, athafnir eða námskeið. Þetta umhverfi laðar óhjákvæmilega að sér fólk sem hefur ekkert með það að gera að leiðbeina öðrum eða jafnvel velmeinandi fólk sem getur mögulega valdið öðrum skaða óviljandi.


Þar sem það er ekkert utanumhald eða regluverk í kringum andleg málefni eða óhefðbundnar lækningar, neyðist fólk til þess að taka sjálft ábyrgð á því til hvers það leitar og hverjum það treystir. Ég hef sem betur fer ekki lent í neinu slæmu þannig séð (fyrir utan eitt atvik) en ég hef engu að síður verið í aðstæðum og í kringum einstaklinga sem ég var ekki að tengja við eða fannst ekki vera að gera góða hluti, aðstæður sem ég ákvað þá að yfirgefa.


Ég hef sem betur fer alltaf verið í sterkum tengslum við innsæi mitt og verið dugleg að spyrja sjálfa mig spurninga þegar ég hef leitað mér aðstoðar hjá fólki eða farið á einhvers konar viðburði eða námskeið. Oftar en einu sinni hef ég komist að þeirri niðurstöðu að fólkið sem um ræðir séu ekki réttu andlegu leiðbeinendurnir fyrir mig. Það er þá yfirleitt vegna þess að mér fannst það ekki vera nógu meðvitað um sjálft sig, á þann hátt að það var ekkert endilega að skoða hluti í sínu eigin fari sem það þyrfti mögulega að vera að vinna í.


Einu sinni var ég á miðilsnámskeiði þar sem við nemendurnir vorum hvött til þess að efast ekki um þau skilaboð sem við vorum að fá að handan, sem mér fannst ekki gagnlegt vegna þess að það er ekkert eðlilegra en að vera gagnrýninn á það sem maður er að sjá og heyra þegar maður er nýbyrjaður að vinna með hæfileika á þessu sviði. Mér finnst að maður eigi að velta hlutunum fyrir sér og gefa sér tíma til þess að aðlagast því að raunveruleikinn er ekki eins og manni hefur verið kennt og upplifað.


Ég staldra líka alltaf við þegar ég heyri fólk segja að það haldi að það sé jafnvel búið að vinna í sjálfu sér svona að mestu eða halda því fram að þetta líf þeirra í dag sé síðasta líf þeirra hér á jörðinni. Ég lít á það sem svo að verkefnum manns sé aldrei lokið, þó svo að maður eigi auðveldara með að takast á við þau, vegna þess að lífið færir manni alltaf ný tækifæri til þess að halda áfram að vaxa og þroskast. Það er varhugavert að halda að maður sé einhvern tímann búinn að læra sínar lexíur.


Það er svo sem hluti af andlegu ferðalagi að detta í ákveðnar gildrur á leiðinni, sem ég þekki sjálf vel. Ég hef t.d. gerst sek um að finnast ég vera svo sérstök og öðruvísi að enginn geti skilið mig eða finnast ég vera yfir fólkið í kringum mig hafin, því ég sé komin svo langt á minni leið. Það er eðlilegt ferli en þegar fólk er komið á þann stað að það er farið að kenna og leiðbeina öðrum þarf það líka að vera búið að falla í þessar gildrur og vera fært um að hjálpa þeim sem eru að koma á eftir.


Það góða við þennan Kompás þátt og umræðuna í kringum hann finnst mér vera að það er ekki verið að segja að fólk eigi ekki að vera í andlegum málefnum eða stunda óhefðbundnar lækningar, aðeins að minna fólk á að það eru hættur í þessum heimi sem ber að varast. Það breytir því ekki að það er líka til fullt af dásamlegu fólk sem hefur margt gott fram að færa.


Fólkið sem ég umgengst og leita til eru auðmjúkir einstaklingar sem hafa hjálpað mér að styrkja sjálfa mig svo að ég geti leyst úr mínum eigin vandamálum, sem hvetja mig til þess að finna svörin sem ég er að leita að innra með sjálfri mér, og sem minna mig reglulega á að taka það aðeins inn úr kennslunni sem mér finnst vera rétt og gagnlegt fyrir mig.


Ég held að það verði alltaf til fólk sem hefur áhuga á andlegum málefnum og vill nýta sér óhefðbundnar lækningar. Ég vildi að það væri almennt viðurkennt að það er til fólk sem er næmt, enda er mun meira til af slíkum einstaklingum en flestir halda. Ef þetta væri ekki svona mikið tabú, ef andleg málefni væru meira viðurkennd, þá væri kannski hægt að finna leið til þess að búa til einhvers konar regluverk í kringum slíka starfsemi og gera hana öryggari fyrir alla sem að henni koma.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page