Heilbrigð sál í heilbrigðum líkama
- Guðný Guðmundsdóttir

- Aug 27, 2023
- 3 min read
Ég er alltaf að garfast í því hvernig mér líður og af hverju er ég ennþá að ströggla við sjálfa mig.

Ég er allt önnur manneskja en ég var fyrir nokkrum árum síðan, enda er ég búin að leggja mikið á mig til þess að vinna úr vanlíðan minni og kvíða, en ég er engu að síður ennþá hálf dofin og mig langar svo mikið til þess að upplifa meiri gleði í lífinu. Ég glími einnig við ákveðin – afar hvimleið – heilsufarsleg vandamál; heilaþoku, minnisleysi, síþreytu, meltingar- og húðvandamál og svo framvegis.
Mig langar líka svo mikið að búa yfir meiri framkvæmdagleði – ég rekst stundum á eitthvað sem mig langar að prófa eða læra en svo tekur það mig heillangan tíma að láta það verða að veruleika. Ég tók þess vegna af skarið og keypti mér námskeiðið hjá The Workout Witch eftir að ég var búin að fylgjast með henni á samfélagsmiðlum í margar vikur, en hún talar einmitt um að áðurnefnd einkenni geti verið afleiðing af því að hafa verið undir langvarandi álagi og streitu.
Ég finn fyrir meiri verkjum í líkamanum en áður, sem ég get vel tengt við að séu tilkomnir af því að geta aldrei slakað almennilega á, en sama hvað ég reyni þá upplifi ég óþarflega mikla streitu í mínu daglega lífi. Ég get tekið sem dæmi að ég er svo taugatrekkt að manneskja sem ferðaðist með mér um landið sagði að það að vera með mér í bíl væri eins og að geta alltaf átt von á því að verða óvænt fyrir þyrlu!
Ég held að það hafi mikil áhrif á líkamann að vera alltaf svona stífur og strekktur, enda er t.d. talið að það séu tengsl á milli vefjagigtar og ofbeldis í æsku. Fólk sem á áfallasögu að baki er alltaf undirbúið fyrir það versta, en ég las einhvers staðar að ástæðan fyrir því væri sú að það hefði þegar upplifað hræðilega hluti og ætti því alltaf von á því að það sama eða eitthvað svipað gæti gerst.
Mér finnst ég finna fyrir þessum verkjum í vöðvum og bandvef líkamans, en ég fann ekki fyrir þessum verkjum áður vegna þess að ég var ekki einu sinni í líkama mínum. Ég lærði það í sjaman-náminu að vitund mín yfirgaf líkamann til þess að þurfa ekki að finna fyrir sársaukanum sem ég geymdi þar. Námið hjálpaði mér að tengjast líkama mínum og líðan betur, en það veldur því að ég finn fyrir meira af því sem líkami minn geymir.
Það getur verið þreytandi að vera á svona sjálfsræktarferðalagi og finnast maður alltaf eiga eitthvað eftir, eins og þessari vinnu muni aldrei ljúka. Ég er náttúrulega búin að afreka ýmislegt undanfarin ár; ég lauk sjaman-náminu, var einn vetur hjá Starcodes Academy og tók alls konar námskeið tengdum mataræði og meltingu, auk þess sem ég fer af og til í heilun, þannig að það er alls ekki eins og ég geri ekki neitt.
Mér finnst þar af leiðandi að ég ætti að vera orðin nokkuð góð á þessum tímapunkti, miðað við allt sem á undan er gengið. En þetta er ferli og það tekur alltaf við dýpra lag. Eitt það besta sem ég hef gert á þessu ári er að lesa The Untethered Soul, sem lýsir ferlinu sem á sér stað þegar um andlega vakningu er að ræða.
Ég er búin að fara í gegnum fyrsta stigið, þar sem ég áttaði mig á því að ég er ekki sjálfsmynd mín og lærði að gera greinarmun á hugsunum mínum, tilfinningum og viðhorfum og þeirri „mér“ sem fylgist með, vitninu. Nú er ég stödd á næsta stigi, þar sem allt sem ég þarf að vinna úr finnur sér leið upp á yfirborðið, sem þýðir að ég er tilneydd til þess að vinna með líkamann minn og tilfinningar, hvort sem mér líkar betur eða verr.
Það að ég er ennþá verkjuð, að ég er ennþá að glíma við þessi vandamál sem ég nefni hér að ofan, þýðir að ég er ennþá verk í vinnslu. Mantran mín ætti þarf af leiðandi að vera „þetta er ferli“, sem er eitthvað sem ég minni sjálfa mig á þegar ég er alveg að bugast. Góðu fréttirnar er að þetta er allt saman vel þess virði, vegna þess að ferlinu lýkur með uppljómun, að minnsta kosti samkvæmt höfundi The Untethered Soul!



Comments